Forseti Indlands, Pratibha Patil, og indversk stjórnvöld hafa boðið forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, að koma í opinbera heimsókn til Indlands dagana 14.-18. janúar næstkomandi og taka um leið við Nehruverðlaununum sem ákveðið var að sæma hann á liðnu ári. Auk forseta verða í sendinefnd Íslands, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og embættismenn utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu. Einnig verða með í för fulltrúar háskóla- og vísindasamfélags, viðskipta og menningarstarfsemi.
Í fréttatilkyningu segir að Ólafur Ragnar Grímsson fái verðlaunin fyrir framlag á alþjóðlegum vettvangi og þátttöku sína í baráttu fyrir friði og afvopnun þegar hann átti ásamt öðrum frumkvæði að samstarfi sex þjóðarleiðtoga, m.a. Rajiv Gandhi og Olof Palme.
Nehruverðlaunin eru kennd við fyrsta forsætisráðherra Indlands, þjóðarleiðtogann Jawaharlal Nehru og hafa á undanförnum áratugum m.a. verið veitt ýmsum friðar- og mannúðarleiðtogum. Í heimsókninni verður fjallað um ýmis samstarfsverkefni Íslendinga og Indverja, svo sem á vettvangi jarðhitanýtingar og orkumála, jökla- og loftslagsrannsókna, vísinda, menningar, viðskipta og kvikmyndagerðar.
Forseti Íslands og utanríkisráðherra munu m.a. eiga fundi með forseta Indlands Pratibha Patil, forsætisráðherranum Manmohan Singh og öðrum ráðamönnum Indlands. Þá verða margvíslegir viðburðir, málþing og viðræður í þremur borgum: höfuðborginni Delí, Mumbai, miðstöð viðskipta og kvikmyndagerðar og í Bangalore, miðstöð upplýsinga- og hátækni.