Rannsaka stuðning við Stáltak

Reykjavíkurhöfn
Reykjavíkurhöfn mbl.is/Árni Sæberg

Eftirlitsstofnun EFTA hefur tekið ákvörðun um að hefja formlega rannsókn á kæru Hafnarfjarðarkaupstaðar til stofnunarinnar vegna opinbers fjárstuðnings Reykjavíkurhafnar (nú Faxaflóahafnir) við rekstur Stáltaks hf. 

Hafnarfjarðarkaupstaður sendi kæru til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem því var haldið fram að margskonar viðskipti milli Reykjavíkurhafnar, Dráttarbrauta Reykjavíkur og Stáltaks hf. hafi falið í sér opinberan fjárstuðning til Stáltaks sem væri andstæður ákvæðum EES samningsins um opinberan fjárstuðning.

Telur Hafnarfjarðarbær að allt frá því í desember 1999, þegar Dráttarbrautir Reykjavíkur voru settar á stofn af hálfu Reykjavíkurborgar og Stáltaks, hafi Reykjavíkurhöfn beint og óbeint styrkt starfsemi Stáltaks fjárhagslega.

„Fjárstuðningurinn felist t.a.m. í kaupum á eignum félagsins, en þar er einkum átt við ákvörðun kaupverðs og önnur samningskjör sem hafi falið í sér fríðindi til handa félaginu og ákvörðun óeðlilegra leigukjara; langt undir leigukjörum á markaði. Telur kærandi að með þessum ívilnunum í garð félagsins sem starfar á samkeppnismarkaði sé Reykjavíkurhöfn að raska samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem starfa á sama sviði, en jafnframt sé með þessu raskað samkeppnisstöðu þeirra hafna sem bjóða slíka þjónustu, þ.á.m. Hafnarfjarðarhafnar," að því er segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Með hinum opinbera fjárstuðningi Reykjavíkurhafnar hafi Stáltaki verið gert kleift að bjóða uppá slippþjónustu á lægra verði en samkeppnisaðilarnir. Eins og fyrr segir telur kærandi að aðgerðir Reykjavíkurhafnar feli í sér brot á þeim ákvæðum EES samningsins sem fjalla um opinberan fjárstuðning og gerir þær kröfur að stofnunin grípi til þeirra ráðstafana sem ákvæði samningsins heimila til að stöðva þessa opinberu íhlutun og beiti Reykjavíkurhöfn jafnframt viðurlögum í samræmi við brot sín, samkvæmt tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar.
 
„Þar sem frumrannsókn málsins lauk með ákvörðun um að hefja formlega rannsókn er ljóst að ESA telur ákveðnar líkur á að reglur EES samningsins hafi verið brotnar, en tekið er fram í niðurlagi ákvörðunarinnar að ESA dragi í efa að aðgerðirnar standist ákvæði 61. gr. EES samningsins og að þær samræmist ekki framkvæmd EES samningsins. Með ákvörðuninni hefst ferli þar sem aðilum er gefinn kostur á að koma fram athugasemdum, en málsmeðferðarreglur ESA gera ráð fyrir að stofnunin ljúki málinu innan 18 mánaða frá birtingu ákvörðunarinnar," samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka