Réttlætiskenndin segir mér að þiggja ekki biðlaun

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.

„Ég fer beint úr einu starfi í annað, af launum hjá bænum á laun hjá hinu opinbera. Réttlætiskennd mín segir mér að þiggja ekki biðlaun,“ segir Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sem lætur af starfi bæjarstjóra í Grindavík um komandi mánaðamót til að gerast sóknarprestur á Fáskrúðsfirði.

Jóna Kristín hefur tilkynnt að hún afsali sér þeim sex mánaða biðlaunum sem hún á rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Hún hefur verið bæjarstjóri í Grindavík á annað ár en var í sumar valin sóknarprestur í Kolfreyjustaðarprestakalli í Fáskrúðsfirði.

Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri, var ráðinn út kjörtímabilið. Hann verður á biðlaunum fram í maí og sex mánuði þar til viðbótar.

Ekki hefur verið gengið frá því hver gegnir starfi bæjarstjóra það sem eftir er af kjörtímabilinu.

„Mér er verulega hlýtt til Grindavíkur og hefði gjarnan viljað klára þetta kjörtímabil en prestsembættið fyrir austan losnaði óvænt. Þetta er í þriðja skiptið síðan ég kom til Grindavíkur sem brauð losnar í minni heimabyggð. Ef ég hefði látið það vera núna að láta á þetta reyna, hefði sjálfsagt ekki orðið af því,“ segir Jóna Kristín.

Hún er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði. „Það leggst vel í fjölskylduna að fara austur.“

Prestssetrið er á Kolfreyjustað en þar sem íbúðarhúsið hefur verið dæmt óíbúðarhæft situr presturinn nú í þorpinu, Búðum. Kirkjuþing frestaði að taka afstöðu til þess hvort færa ætti prestssetrið til Búða. Sjálf segist Jóna Kristín ekki hafa tekið afstöðu til málsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert