„Annað hvort á að hækka sjómannaafsláttinn umtalsvert eða breyta honum þannig að hann fari í sambærilegt horf og skattfrjálsar dagpeningagreiðslur til ríkisstarfsmanna og annarra launþega,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Friðrik sagði að fengju sjómenn sambærileg kjör og þeir sem njóta nú skattfrjálsra dagpeninga myndi það þýða mun meiri skattaafslátt fyrir sjómenn en þeir njóta.
„Ef menn ætla að fella niður sjómannaafslátt þá hlýtur að vera tryggt um leið að sjómenn fái sambærilegan skattaafslátt og aðrir launþegar sem njóta dagpeninga við störf sín fjarri heimili. Það er algjört grundvallaratriði,“ sagði Friðrik.
Hann taldi ljóst að útgerðarmenn og sjómenn muni sameiginlega eða hvorir í sínu lagi ræða þá sjálfsögðu kröfu við stjórnvöld að sjómenn njóti sambærilegra kjara og aðrir landsmenn.