Sjómenn njóti sömu kjara og aðrir

Brynjar Gauti

„Annað hvort á að hækka sjó­manna­afslátt­inn um­tals­vert eða breyta hon­um þannig að hann fari í sam­bæri­legt horf og skatt­frjáls­ar dag­pen­inga­greiðslur til rík­is­starfs­manna og annarra launþega,“ sagði Friðrik J. Arn­gríms­son, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna. 

Friðrik sagði að fengju sjó­menn sam­bæri­leg kjör og þeir sem njóta nú skatt­frjálsra dag­pen­inga myndi það þýða mun meiri skatta­afslátt fyr­ir sjó­menn en þeir njóta.

„Ef menn ætla að fella niður sjó­manna­afslátt þá hlýt­ur að vera tryggt um leið að sjó­menn fái sam­bæri­leg­an skatta­afslátt og aðrir launþegar sem njóta dag­pen­inga við störf sín fjarri heim­ili. Það er al­gjört grund­vall­ar­atriði,“ sagði Friðrik.

Hann taldi ljóst að út­gerðar­menn og sjó­menn muni sam­eig­in­lega eða hvor­ir í sínu lagi ræða þá sjálf­sögðu kröfu við stjórn­völd að sjó­menn njóti sam­bæri­legra kjara og aðrir lands­menn. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert