Veiddu samtals 390 refi

Yrðlingar sem aldir voru í Þórsmörk.
Yrðlingar sem aldir voru í Þórsmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Veiðimenn á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar veiddu 390 refi og 300 minka á nýliðnu veiðitímabili sem lauk 1. september sl. Landbúnaðarnefnd telur mikla þörf á veiðunum og leggur til að ríkið leggi til veiðanna ekki lægri fjárhæð en nemur virðisaukaskatti sem veiðimenn greiða vegna vinnu sinnar.

Skýrsla um refa- og minkaveiðar í Skagafirði frá 1. september 2008 til 31. ágúst 2009 var lögð fram á fundi landbúnaðarnefndar. 

Þar kemur fram að veidd voru 148 fullorðin grendýr, 159 hvolpar og 83 hlaupadýr, samtals 390 refir. Kostnaður við veiðarnar var liðlega 4,1 milljón kr.

Veiddir voru 154 fullorðnir minkar og 146 hvolpar, samtals 300 minkar. Kostnaður nam tæplega 1,6 milljón kr.

Fram kemur í fundargerðinni að miklar umræður urðu um framhald refaveiða en tilkynning hefur borist um að ríkið hætti að greiða verðlaun frá næstu áramótum.

Landbúnaðarnefnd gerði eftirfarandi bókun sem send verður viðkomandi aðilum, ráðherra og Umhverfisstofnun:
„Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði ríkisins á endurgreiðslu til refaveiða. Landbúnaðarnefnd bendir á, að á síðustu árum hefur ríkið fengið umtalsvert hærri upphæð í greiðslu virðisaukaskatts frá veiðimönnum vegna refaveiða en nemur þeim styrk, sem ríkið hefur lagt til veiðanna. Með hliðsjón af þeirri miklu þörf sem er á veiðunum, leggur landbúnaðarnefnd til að ríkið haldi áfram endurgreiðslu til refaveiða og borgi þá ekki minna en sem nemur virðisaukaskatti af veiðunum, þannig að ríkið hagnist ekki á veiðunum.“
 
Landbúnaðarnefnd samþykkti jafnframt að beina því til sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hún sjái sér fært að veita sömu upphæð til refa og minkaveiða á næsta ári, eða fimm milljónir auk verðbóta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert