Biskupi Íslands verða afhentir í dag undirskriftalistar frá hátt í helmingi atkvæðisbærra sóknarbarna á Selfossi. Þau krefjast þess að nýr sóknarprestur á Selfossi verði kosinn í almennum prestskosningum.
Í yfirlýsingunni segir: „Á Kirkjuþingi 2009, 12. nóvember sl., var samþykkt að sameina Hraungerðisprestakall og Selfossprestakall.
Sóknarbörn á Selfossi sætta sig ekki við að sóknarprestur Hraungerðisprestakalls taki sjálfkrafa við embætti sóknarprests í hinu sameinaða prestakalli. Enda stærðarmunur á söfnuðunum gríðarlegur því tæplega 500 manns búa í Hraungerðisprestakalli en 6600 íbúar eru á Selfossi.
Sóknarprestur veitir forystu í kirkjulegu starfi og fullt traust þarf að ríkja milli hans og safnaðarins. Því trausti er ógnað ef lýðræðislegur réttur sóknarbarna um kosningu er ekki virtur.
Með undirskriftunum er sett fram sú sjálfsagða og lýðræðislega krafa að samfélag sem telur 6600 manns hafi eitthvað um það að segja hver sé þeirra sóknarprestur. Gamlar hefðir kirkjunnar mega ekki þvælast fyrir kirkjuyfirvöldum þegar eindreginn vilji sóknarbarnanna liggur fyrir.“