Áform um að skerða fæðingarorlof foreldra hafa verið lagðar til hliðar, en í staðinn verður foreldrum gert að fresta töku eins mánaðar af fæðingarorlofi í allt að 36 mánuði. Slík frestun hefur í för með sér sparnað vegna úrgjalda næsta árs.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður félags- og tryggingamálanefnd Alþingis, segir að frumvarp um breytingar á lögum um fæðingarorlof verði lagt fram á Alþingi eftir helgina. Hún segir að sú breyting hafi verið gerð á frumvarpinu að í stað þess að skerða hámarks fæðingarorlof og færa greiðslur úr 80% af launum niður í 75%, sé nú gert ráð fyrir að foreldrar fresti einum mánuði af níu mánaða fæðingarorlofi í allt að 36 mánuði. Samkvæmt gildandi reglum þurfa foreldrar að taka fæðingarorlofið út á fyrstu 18 mánuðum eftir að barn fæðist. Þessi eini mánuður verður tekinn af þeim þremur mánuðum sem foreldrar eiga sameiginlega.
Sigríður Ingibjörg sagði ekki æskilegt að gera breytingar á reglum um fæðingarorlof, en fjárhagur ríkissjóðs væri hins vegar með þeim hætti að menn yrðu að gera fleira en gott þætti.
Réttindi í fæðingarorlofi hafa verið skertar tvívegis á þessu ári.