Hvað sagði amma um Icesave?

Icesave-málið hefur verið rætt á þingi í allan dag.
Icesave-málið hefur verið rætt á þingi í allan dag. Árni Sæberg

Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður sagði að gera ætti þá kröfu til stjórnarþingmanna að þeir útskýrðu afstöðu sína til Icesave-málsins. Þeir ættu að gera það fyrir börn sín og barnabörn.

Ragnheiður Elín sagði að málið væri það stórt að menn ættu að útskýra afstöðu sína, þó ekki væri nema fyrir barnabörnin sín. "Amma þú varst á þingi þegar Icesave-málið leyst. Hvaða sagðir þú? Það væri pínlegt ef maður segði við barnabörnin sín. "Æ, ég hafði bara ekkert um þetta mál að segja,"" sagði Ragnheiður í ræðu sinni.

Fimmtán þingmenn eru enn á mælendaskrá um Icesave-málið, en það hefur verið rætt í allan dag á Alþingi. Einungis þingmenn stjórnarandstöðunnar eru á mælendaskrá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lauk ræðu sinni um kl. 16. Hann sagði þegar forseti þingsins hafði slegið í bjölluna til merkis um að ræðutíminn væri liðinn, að hann hefði ekki náð að ljúka yfirferð sinni yfir málið og óskaði eftir að hann yrði settur aftur á mælendaskrá.

Eftir að Sigurður hafði lokið ræðu sinni kom Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, upp í andsvör og spurði Sigurð m.a. hvað hann teldi ráða afstöðu þingmanna Vinstri grænna til frumvarpsins um Icesave.

Sigurður sagðist telja að afstaða þingmanna Samfylkingar væri tengd afstöðu þeirra til aðildar að Evrópusambandsins. Erfiðara væri að átta sig á afstöðu þingmanna VG. Hann skoraði á þingmenn flokksins að útskýra afstöðu sína til málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert