Norðlenska selur í haust um 100 þúsund lambagarnir til Egyptalands, þar sem þær eru fullverkaðar, flokkaðar og seldar áfram til notkunar við framleiðslu á pylsum. Verðið er þokkalegt, að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins, miðað við verð sem fengist hefur fyrir aðrar afurðir á erlendum mörkuðum.
Haft er eftir Ingvari Gíslasyni, markaðsstjóra Norðlenska, á heimasíðu fyrirtækisins að þessi útflutningur væri aðeins mögulegur vegna hagstæðs gengis krónunnar. Fyrirtækið hefur síðastliðin þrjú ár hent öllum görnum sem falla til við slátrun. Úrgangur fyrirtækisins minnkar því umtalsvert vegna þessarar sölu.
Haustslátrun Norðlenska gekk mjög vel. Alls var slátrað ríflega 108 þúsund fjár, tæplega 77 þúsund á Húsavík og rúmlega 31 þúsund á Höfn. Dilkar voru örlítið þyngri haustið 2009 en í fyrra, á Húsavík munaði 30 gr. og 70 gr. á Höfn. Samkvæmt yfirliti frá Bændasamtökunum um slátrun í haust var framleiðsla kindakjöts mjög svipuð í haust og í fyrrahaust eða um 8.800 tonn. Sala á lambakjöti hefur hins vegar dregist mikið saman. Samdrátturinn á síðustu 12 mánuðum er 14,4%.