Innbrot var framið í tölvuverslun í Borgarnesi seint í gærkvöldi. Þjófarnir komust undan með stórt sjónvarp, þrjár fartölvur og myndavél. Þýfið er metið á mörg hundruð þúsund krónur. Lögregla segir þjófanna hafa gengið að verkinu líkt og atvinnumenn.
Varðstjóri hjá lögreglunni í Borgarnesi segir auðséð að þjófarnir hafi verið þaulvanir. Þeir hafi á aðeins nokkrum mínútum gripið munina og verið á bak og burt. Litlar sem engar vísbendingar eru um hverjir voru að verki. Lögregla kannar nú upptökur úr öryggismyndavélum en óvíst er að þær hjálpi til við rannsóknina.