Vill ná tveimur mönnum

Kjörfundur framsóknarmanna í Reykjavík stendur fram eftir degi.
Kjörfundur framsóknarmanna í Reykjavík stendur fram eftir degi. mbl/Golli

Einar Skúlason segist stefna að því að Framsóknarflokkurinn fái tvo menn kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur, en flokkurinn fékk einn kjörinn í síðustu kosningum. Óskar Bergsson borgarfulltrúi, sem tapaði fyrir Einari í kosningum um fyrsta sætið, ætlar ekki að taka sæti á listanum, en segist styðja nýja forystu.

Einar fékk 62% atkvæða í kosningu framsóknarmanna um fyrsta sætið. Óskar fékk 38%.

Einar sagði í samtali við mbl.is að það hefðu orðið miklar breytingar hjá Framsóknarflokknum í upphafi þessa árs þegar flokkurinn hélt flokksþing og áhrifin af því birtist í niðurstöðu kosninga um forystusætið í Reykjavík. "Menn fóru í sókn í landsmálum og menn telja greinilega að það sé þörf á því að sækja fram í borgarstjórn Reykjavíkur með sama hætti."

"Það er vonbrigði að bíða ósigur, en þetta er niðurstaðan og ég virði hana," sagði Óskar Bergsson þegar hann var spurður um niðurstöðu kosninganna. Hann sagði að Einar væri með gott fólk með sér. "Ég held að það sé mikilvægt að það skapist sátt um listann og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að það takist. "

Niðurstöður liggja fyrir í kosningu um 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík til borgarstjórnarkosninganna. Guðrún Valdimarsdóttir hlaut flest atkvæði eða 46%, Salvör Gissurardóttir 14% og Valgerður Sveinsdóttir 39% atkvæða.

Þar sem enginn frambjóðenda fékk yfir 50% atkvæða þarf að fara fram önnur umferð milli tveggja efstu frambjóðenda, þeirra Guðrúnar Valdimarsdóttur og Valgerðar Sveinsdóttur.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og stuðningsmaður Óskars, tilkynnti þegar úrslit lágu fyrir, að hann dragi framboð sitt í 3. sæti til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert