Auka úrræði fyrir ungt fólk

Árni Páll segir mikilvægt að auka atvinnu- og menntunarúrræði fyrir …
Árni Páll segir mikilvægt að auka atvinnu- og menntunarúrræði fyrir ungt fólk. mbl.is

„Við viljum að kerfið sé þannig skipulagt að það hvetur fólk áfram, án þess að þurfa að skerða bætur sem fólk hefur lifibrauð af í dag,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra um fyrirhugaðar breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu sem sagt var frá á mbl.is fyrr í dag.

Árni Páll segir að eftir að búið sé að taka tillit til hagræðingarkröfu vegna málaflokksins sé gert ráð fyrir að umræddar breytingar þýði að um 800 milljónir verða afgangs, sem nota á alfarið til að efla úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk.

Fjölsmiðjan stækkuð og stutt við starfsþjálfun

„Þetta þýðir að við getum farið af stað með mjög fjölþætt starf fyrir þennan hóp. Við getum samið við ýmsa aðila sem bjóða upp á náms- og atvinnuúrræði fyrir ungt fólk og auk þess ráðið fleira fólk til starfa til að styðja við slík verkefni,“ segir Árni Páll.

Meðal úrræða sem um ræðir er að Fjölsmiðjan verður stækkuð og stutt við starfsþjálfun fyrir ungt fólk hjá fyrirtækjum og stofnunum. Stefnt er að því að nota milljónirnar áttahundruð á fyrri hluta næsta árs, en endurskoða svo þörfina með vorinu.

Eins og sagt var frá á mbl.is fyrr í dag stendur meðal annars til að breyta rétti þeirra til bóta sem eru með sjálfstæðan rekstur, og eins breyta rétti skólafólks til bóta á meðan námi stendur. Þá verða viðurlög við því að synja úrræðum hert, og endurkröfur vegna ofgreiddra bóta gerðar einfaldari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert