Hátíðarstemning hefur ríkt í Bolungarvík alla helgina í tilefni af því að sprengt var í gegnum Óshlíðargöngin í gær. Bæjarbúar hafa flestir lagt leið sína í gegnum göngin í dag en boðið var upp á rútuferðir til að taka forskot á sæluna. Göngin verða hinsvegar ekki tilbúin fyrir almenna umferð fyrr en næsta sumar.
„Fyrsta rútan fór í gegn klukkan þrjú og allir sem vilja fara í gegn hafa getað komið," segir Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík. „Það er mjög vel sótt í göngin og biðröð í rúturnar en þetta stendur alveg til sex." Það er Verktakinn, Ósafl, sem býður upp á rútuferðirnar og auk þess er boðið í kaffisamsæti á verkstæði Ósafls þar sem sjá má myndasýningu sem sýnir framgang verksins.
Að sögn Elíasar er stemningin í bænum gríðarlega góð þessa helgina og gleði yfir því að þessum áfanga skuli vera náð. „Í sjálfu sér hafa samgöngurnar verið greiðar undanfarið ár en það hefur vantað upp á öryggið og með þessu er það tryggt. Bolvíkingar taka því mjög fagnandi og nágrannabyggðirnar líka"
Aðspurður segist honum hafa litist mjög vel á göngin við fyrstu sýn, en hann hefur að sjálfsögðu tekið þau út. „Ég fór náttúrulega í fyrstu rútunni, það kom ekkert annað til greina,“ segir Elías og hlær.