Framkvæmdasýsla ríkisins hefur boðið út hönnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Nýja byggingin verður í miðbæ Mosfellsbæjar, við Háholt. Fyrsta áfangi verður um 4.000 fermetrar og rúmar fjögur- til fimmhundruð nemendur.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hóf kennslu í haust í Brúarlandi í bráðabirgðahúsnæði. Aðeins einn árgangur er í skólanum, en gert er ráð fyrir að bæta við öðrum næsta haust. Áætlað er að nýtt húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ verði tekið í notkun 2012-2013.
Við hönnun hússins verður lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni. Framhaldskólinn kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi, það er auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Stefnt er að því að skólinn verði með áfangasniði. Meðal nýjunga eru rými með klösum fyrir hópstarf nemenda. Í boði verður bóknám, nám í verknáms- og handverksgreinum svo og listgreinum. Í rýmisáætluninni er gert ráð fyrir um 1.900 fermetra kennslurými, 400 fermetra stjórnunarrými og um 500 fermetra önnur rými, samtals 2.800 fermetra nettó eða um 4.000 fermetrar brúttó. Gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar skólans á lóðinni í framtíðinni.