Kveikt var á jólatrjám í Snæfellsbæ í dag einu af öðru. Fyrst var kveikt á jólatrénu á Hellissandi og klukkutíma seinna á jólatrénu í Ólafsvík þar sem fjöldi manns lét snjó og kulda ekki á sig fá.
Sönghópurinn Jólastjörnurnar söng nokkur jólalög við í tilefni dagsins, síðan var talið niður og kveikt á jólatrénu við mikinn fögnuð áhorfenda. Að lokum komu börn Grýlu til byggða og gladdist yngri kynslóðin enda fengu börnin ýmislegt gott í gogginn.
Einkar jólalegt hefur verið um að litast í Snæfellsbæ í dag enda er þar allt á kafi í snjó eftir úrkomu helgarinnar.