1,5 milljarður mun sparast í bótakerfinu

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar

Marg­vís­leg­ar breyt­ing­ar á at­vinnu­bóta­kerf­inu eru í vænd­um um ára­mót. Mark­mið breyt­ing­anna, sem unn­ar eru að frum­kvæði fé­lags­málaráðherra, er m.a. að skerpa fram­kvæmd at­vinnu­leys­is­trygg­inga og að ná fram sparnaði, allt að 1,5 millj­örðum, sem verða nýtt­ir til að virkja at­vinnu­laust fólk með fjöl­breyti­leg­um úrræðum.

„Það má segja að mark­miðið sé að skafa inn­an úr þessu kerfi sem er orðið mjög um­fangs­mikið," seg­ir Giss­ur Pét­urs­son, for­stjóri Vinnu­mála­stofn­unn­ar. „Gert er ráð fyr­ir að við séum að greiða á milli 28-30 millj­arða í at­vinnu­leys­is­bæt­ur á næsta ári, sem eru gíf­ur­leg­ar fjár­hæðir. Svo það má miklu til kosta til að reyna að ná þessu niður, fyr­ir nú utan hinn sam­fé­lags­lega sparnað sem verður af því að virkja fólk sem sit­ur eft­ir í at­vinnu­leysi."

Sjálf­stætt starf­andi með op­inn rekst­ur fá aðeins bæt­ur í 3 mánuði

Helstu breyt­ing­ar snerta m.a.  bóta­rétt fólks með sjálfsætt starf­andi rekst­ur og enn með rekst­ur­inn op­inn. Rétt­ur þessa hóps til bóta var tryggður með ákvæði sem sett var inn í lög­in eft­ir hrunið síðasta haust, en mun nú skerðast við 3 mánuði. Það þýðir að viðkom­andi geta aðeins fengið bæt­ur sam­hliða því að halda rekstr­in­um opn­um í 3 mánuði. Að þeim tíma liðnum verða þeir að loka rekstr­in­um og kom á bæt­ur sem hefðbundn­ir launa­menn, eða hverfa af bót­um og sinna sín­um rekstri óstudd­ir. „Við trú­um að það verði lang­stærsti hóp­ur­inn, sem geti að þess­um tíma liðnum treyst sér til að lifa af sín­um rekstri og þurfi ekki á at­vinnu­leys­is­bót­um að halda," seg­ir Giss­ur.

Meðal annarra breyt­inga má nefna að bóta­rétt­ur til skóla­fólks er skert­ur á meðan náms­tíma stend­ur, þ.e.a.s. náms­menn geta ekki sótt bæt­ur á sumr­in meðan þeir bíða næstu ann­ar. Á móti kem­ur að sá bóta­rétt­ur sem náms­menn vinna sér inn með sum­ar­vinnu mun geym­ast til lengri tíma en áður. Þeir sem ekki fá vinnu að lok­inni út­skrift eiga þannig rétt á bót­um vegna vinnu síðust 6 ára, en áður gilti bóta­rétt­ur­inn aðeins í 3 ár.

Þá munu hluta­bæt­ur breyt­ast að því leyti að lág­mark 20% starfs­hlut­falls þarf að skerðast áður en viðkom­andi á rétt á bót­um, en sem stend­ur þarf hlut­fallið aðeins að skerðast um 10% og þurfti raun­ar upp­haf­lega ekki að skerðast nema um 1% til að geta fengið hluta­bæt­ur. Sam­tím­is verður sett þak á það sem menn geta haft í laun og at­vinnu­leys­is­bæt­ur sam­an­lagt og verður það 521.318. Að sögn Giss­ur­ar er þetta þó breyt­ing sem snert­ir ekki marga því ör­fá­ir sem fái bæt­ur vegna skerts starfs­hlut­falls hafi laun sem eru hærri en þetta.

Sér­stak­lega með ungt fólk í huga

Breyt­ing­arn­ar sem í vænd­um eru bein­ast ekki síst gagn­vart at­vinnu­laus­um ung­menn­um á aldr­in­um 16-24 ára, sá hóp­ur sem er hvað veik­ast­ur fyr­ir á vinnu­markaði.  Með aðgerðunum er stefnt að því að bjóða þeim sem geta hefðbund­in námsúr­ræði í fram­halds­skóla­kerf­inu en sér­tæk­ari úrræði þeim sem það þurfa, s.s. Fjölsmiðjuna, grunn­mennta­skól­ann o.fl. sem get­ur verið kostnaðarsamt.

Giss­ur seg­ir að geysi­lega mikið megi gera fyr­ir þá 1,5 millj­arða sem spar­ast með breyt­ing­un­um og úrræði sem þessi muni skila sér marg­falt til baka. „Ég held að þetta sé mjög mikið fram­fara­spor og von­andi að þetta skili sér fljótt bæði í bráð og lengd, það er til svo mik­ils vinn­andi að við náum að virkja þá sem eru at­vinnu­laus­ir og eru í von­leysi og dep­urð, það skil­ar sér til lengri tíma.“

Hann bend­ir einnig á það að aðeins með því að ná að halda meðaltals­at­vinnu­leysi næsta ár í 8-9% á næsta ári í stað 10% muni spar­ast um 3-6 millj­arðar í minni út­greiðslu bóta.

Lög­in taka gildi um ára­mót og mun kerfið því breyt­ast sem þessu nem­ur í janú­ar, en þó með aðlög­un­ar­tíma í sum­um til­fell­um.   

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert