Margir eru nú staddir á Austurvelli í sannkölluðu jólaskapi því þar var að hefjast Aðventuhátíð og kveikt á Óslóartrénu fyrir stundu. Jólalögin tóku að berast yfir miðborgina klukkan hálffjögur þegar Lúðrasveit Reykjavíkur hóf að spila á meðan börn, fullorðna og jólasveina dreif að úr öllum áttum.
Athöfnin hófst svo með ávarpi norska sendiherrans Margit F. Tveiten og tók Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri að því loknu formlega við jólatrénu sem gjöf Óslóarborgar til Reykvíkinga og var það Aud Kvalbein, varaborgarstjóri Óslóar sem afhenti tréð.
Gesti biðu þess þó að sjálfsögðu spenntastir að sjá jólaljósin lýsa upp skammdegismyrkrið og var það 8 ára gömul norsk-íslensk stúlka, Hrafnhildur Sif Ingólfsdóttir, sem tendraði ljósin á trénu við fögnuð borgarbúa.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur undanfarin ár látið gera
jólaóróa til fjáröflunar starfsemi sinni og í ár er Ketkrókur
viðfangsefnið. Hrafnkell Birgisson hannaði óróann, sem prýðir tréð, en Gerður
Kristný flutti auk þess frumsamið ljóð um Ketkrók.
Bangsi litli úr Dýrunum í Hálsaskógi og Ljónið úr Galdrakarlinum í Oz komu líka í heimsókn á Austurvell í dag en vinsælustu gestirnir eru að sjálfsögðu þrír hressir jólasveinar sem hafa laumast til byggða og heilsuðu upp á krakkana við Óslóartréð.