Próflestur hjá námsmönnum og sú staðreynd að um síðustu helgi mánaðarins er að ræða virðist hafa áhrif á skemmtanahald landans, að mati varðstjóra hjá helstu lögregluembættum landsins. Tíðindalaust var um land allt. Ökumenn eru þó varaðir við hálku á vegum fari þeir snemma af stað í dag.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur kyngt niður snjó undanfarna klukkustundir en að sögn varðstjóra hefur snjókoman ekki haft áhrif á ökumenn hingað til. Talsverður fjöldi fólks var í miðborginni í nótt, enda jólahlaðborð allmörg. Þrátt fyrir það gekk skemmtanahald vel fyrir sig. Sex gistu fangageymslur en málin voru öll tengd ölvunarástandi viðkomandi.
Lögreglan á höfuðborgakvæðinu er með sérstakt eftirlit vegna jólahlaðborða líkt og undanfarin ár. Menn virðast þó passa sig betur en áður því enginn var tekinn ölvaður undir stýri í gærkvöldi eða nótt.