Yfir 100 milljónir í kostnað

Umfangsmiklar breytingar eru fyrirhugaðar á skattakerfinu um næstu áramót.
Umfangsmiklar breytingar eru fyrirhugaðar á skattakerfinu um næstu áramót.

Áætlað er að beinn kostnaður ríkissjóðs við leggja á nýja skatta verði yfir 100 milljónir króna. Kostnaðurinn felst í breytingum á tölvukerfi, auglýsingum og kynningarefni og auknu skatteftirliti vegna flóknara skattkerfis.

Í greinargerð með frumvarpi fjármálaráðherra um tekjuöflun ríkissjóðs er reynt að leggja mat á kostnað við breytingar sem leiða af frumvarpinu. Þar segir: "Breytingar þær sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru þess eðlis að gera þarf talsverðar breytingar á innheimtukerfum ríkisins. Reiknað er með að gera þurfi breytingar á tölvukerfum skattkerfisins, auk auglýsinga- og kynningarefnis. Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa gæti orðið á bilinu 90–100 m.kr. Til viðbótar má, þegar frá líður, gera ráð fyrir að auka þurfi skatteftirlit vegna flóknara skattkerfis. Þessi kostnaðarliður hefur ekki verið metinn til fulls en fyrstu áætlanir gera ráð fyrir allt að sjö stöðugildum."

Ríkisstjórnin hefur einnig lagt fram frumvörp um breytingar á virðisaukaskatti og um umhverfis- og auðlindaskatta. "Vegna álagningar kolefnisgjalds má gera ráð fyrir að nokkur aukinn kostnaður verði til hjá tollstjóra vegna aðlögunar á tölvukerfum, auk auglýsinga- og kynningarefnis. Áætlað hefur verið að einskiptis stofnkostnaður vegna þessa gæti verið allt að 5 m.kr. Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist álagningu skatts á raforku og heitt vatn. Álagning og innheimta verður með svipuðum hætti og á við um eftirlit með virðisaukaskatti."

Í umsögn um frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskattskerfinu er gert ráð fyrir að aukinn kostnaður vegna breytinga á tölvukerfum verði allt að 10 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert