271 milljónar halli á RÚV

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti.

Halli á rekstri Ríkisútvarpið rekstrarárið 1. september 2008 til 31. ágúst 2009 var 271 milljón króna og batnaði afkoma félagsins um 465 milljónir króna frá árinu á undan.

Í tilkynningu segir, að tap ársins megi að öllu leyti rekja til mikils fjármagnskostnaðar vegna verðbólgu og gengislækkunar íslensku krónunnar.

Fyrstu sex mánuði rekstrarársins var hallinn 365 milljónir króna en seinni hluti ársins skilaði 94 milljón króna hagnaði. Segir stofnunin, að þessi umskipti skýrist af umfangsmiklum sparnaðaraðgerðum, sem gripið var til í upphafi rekstrarársins, og skila um 700 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli.

Eigið fé RÚV er nú 515 milljónir króna.

„Þrátt fyrir jákvæða rekstrarafkomu RÚV á síðustu misserum eru blikur á lofti. Í því frumvarpi til fjárlaga sem nú er til meðferðar á Alþingi er gert ráð fyrir 10% niðurskurði á tekjum RÚV af almannaþjónustu. Þetta kemur til viðbótar þeim samdrætti sem orðið hefur á auglýsingamarkaði," segir í tilkynningu Ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert