Fyrstu umræðu um frumvarp um kosningar til sveitarstjórna, persónukjör, lauk á Alþingi 3. nóvember sl. Í framhaldinu var málinu vísað til allsherjarnefndar.
Að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns nefndarinnar, reiknar hún með því að málið verði rætt á fundi hennar á morgun, þriðjudag. Allar umsagnir liggja fyrir og nú stendur fyrir dyrum að kalla gesti fyrir nefndina.
Að sögn Steinunnar Valdísar liggur ljóst fyrir að samþykkja þarf frumvarpið á haustþinginu, ef viðhafa á persónukjör við sveitarstjórnarkosningar 29. maí á næsta ári. Hún segist ekki geta svarað fyrir um það hvort líklegt sé að það takist fyrr en eftir fundinn í allsherjarnefnd á morgun. „Ég er bjartsýn manneksja að eðlisfari og el enn von í brjósti um að takist að klára málið á haustþinginu.“ Hún útilokar ekki að frumvarpið taki breytingum í meðförum nefndarinnar. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur hins vegar engar líkur á því að frumvarpið verði að lögum fyrir jól. Málið sé óunnið í nefnd. „Auk þess er takmarkaður stuðningur við málið í því formi sem það er núna.“
Miklar annir eru á þinginu fyrir jól, eins og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra benti á sl. fimmtudag. Fjárlög, fjáraukalög og þrjú til fjögur skattafrumvörp eru óafgreidd, auk fleiri mála. Því er alls óvíst að tími verði til þess að afgreiða frumvarpið um persónukjör.
Ef persónukjör verður innleitt mun það þýða gjörbreytingu á því hvernig fólk velur fulltrúa í sveitarstjórnir. Fólk mun velja listana í kjörklefanum með því að raða fólki á þá. Þrátt fyrir þetta hafa flokkarnir haldið sínu striki varðandi prófkjör til að velja fólk á lista. Nú síðast boðaði Lúvík Geirsson bæjarstjóri að hann hygðist sækjast eftir 6. sætinu á lista Samfylkingarinnar í vor, sem flokkurinn telur baráttusætið.
Skiptar skoðanir eru innan stjórnarflokkanna um frumvarpið. Jóhanna Sigurðurdóttir forsætisráðherra hefur sagt að þetta verði forgangsmál á þingi enda virðist mestur stuðningur við það vera innan Samfylkingarinnar. Í umsögn stjórnar Vinstri grænna kemur fram að frumvarpið um persónukjör sé ófullkomið og þurfi mun betri umfjöllun áður en það sé tilbúið til afgreiðslu.
„Okkur líst ekkert á þetta,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Það er alls staðar verið að framkvæma prófkjör, og við erum eiginlega fallin á tíma.“ Hann telur að Alþingi eigi að prófa þetta fyrirkomulag fyrst á sjálfu sér.
Halldóri finnst frumvarpið ekki ganga nógu langt. Hann skrifaði leiðara í tímaritið Sveitarstjórnarmál, þar sem hann sagði m.a.:
„Ástæðan er sú að frumvarpið gerir ráð fyrir því að kjósandi fái einungis að raða frambjóðendum á þeim lista sem hann kýs. Ekki er gert ráð fyrir því að kjósandi fái að velja frambjóðendur af öðrum listum. Það er í huga undirritaðs persónukjör.“