Fækki ekki opinberum störfum á landsbyggðinni

Frá Stykkishólmi.
Frá Stykkishólmi. mbl.is

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skorar á  samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hafa sanngirni að leiðarljósi og gæta þess að opinberum störfum verði ekki fækkað á landsbyggðinni. Í það minnsta að hlutfallsleg fækkun á opinberum störfum á landsbyggðinni verði ekki umfram fækkun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við íbúafjölda. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

Þar var í bókun um málið rifjað upp að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Norðvestur-kjördæmis, hafi í fyrirspurnartíma Alþingis spurt  Kristján Möller, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, hvort hann hefði í hyggju að færa starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa frá Stykkishólmi í tengslum við boðaðar hugmyndir um sameiningu rannsóknarnefnda og hvort til greina kæmi að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunnar verði utan höfuðborgarsvæðisins.

„Í svari ráðherrans kemur fram að eðlilegt sé að höfuðstöðvar rannsóknanefndar eftir sameiningu verði staðsettar á höfuðborgarsvæðinu þar sem flest slysin eigi sér stað á suðvesturhluta landsins. Rannsóknanefndir umferða- og flugslysa eru nú þegar í Reykjavík og segir ráðherrann í svari sínu að þrátt fyrir áhuga hans á að flytja störf út á land verði líka að gæta þess að á bak við þau er fagfólk sem vinnur við þau. „Við rífum það ekki upp með rótum og færum út á land,“ sagði ráðherrann.

Í ársskýrslu rannsóknanefndar sjóslysa 2007 kemur fram að á árunum 2000 til 2007 eiga 32% sjóslysa sér stað á svæðinu Vestmannaeyjar til Faxaflóa. 68% slysanna eiga sér stað annars staðar, þar af 13% erlendis og 29% á Vestursvæði og Vestfjörðum.

Í ársskýrslu flugslysanefndar 2007 kemur fram að á árinu 2007 voru 27 flugslys rannsökuð þar af áttu 12 sér stað á suðvestur horninu, 5 erlendis og 10 annars staðar á landinu. Skv. skýrslu rannsóknarnefnda umferðaslysa 2008 eiga 72% banaslysa sér stað í dreifbýli og 28% í þéttbýli á árunum 1998 til 2008. Á árinu 2008 áttu 8 banaslys sér stað á suðvestur horninu og 4 annars staðar á landinu.

Af þessum tölum má sjá að það eru umferðaslysin sem fyrst og fremst eiga sér stað á suðvestur horni landsins Í Stykkishólmi er rannsóknarnefnd sjóslysa og á bak við þau störf er fagfólk. Í svari ráðherrans kemur fram að hann rífi ekki upp með rótum það fagfólk sem starfandi er við umferða- og flugslysanefnd í Reykjavík. Það hlýtur að gilda það sama um það fagfólk sem starfar við sjóslysanefnd í Stykkishólmi að það verði ekki rifið upp með rótum og flutt til Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin, og allra síst ráðherra sveitarstjórnarmála, getur ekki gert upp á milli fólks eftir búsetu. Það orkar einnig tvímælis að á vegum ráðuneyta séu nefndir er vinni að tillögum að flutningi opinberra starfa út á land á sama tíma og ráðherra flytur störf utan af landi til höfuðborgarinnar,“ segir m.a. í bókuninni. 

Á sama fundi lét bæjarstjórnin bóka þakkir sínar til Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, fyrir opna umræðu og samstarf við sveitarfélög varðandi hugmyndir um breytingar á skipulagi sýslumanns- og lögreglustjóraembætta. „Slík vinnubrögð eiga að vera öðrum ráðuneytum til fyrirmyndar og eftirbreytni,“ segir í bókun fundarins.


Kristján Möller
Kristján Möller mbl.is
Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka