Kröfuhafar eignast Arion

mbl.is/Ómar

Samkomulag er í burðarliðnum um að erlendir kröfuhafar í gamla Kaupþingi eignast stærsta hlutann í arftakanum, Arion banka. Þetta var fullyrt í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Ganga þarf frá því fyrir miðnætti hver muni eignast nýja bankann samkvæmt samningi ríkisins við skilanefnd gamla bankans frá því í byrjun september. Þar var gert ráð fyrir tveimur kostum. Annars vegar að skilanefndin fyrir hönd kröfuhafa eignast 87% hlutafjár íslenska ríkisins í nýja bankanum og verður hlutur ríkisins þá 13%. Hins vegar getur skilanefndin valið þann kost að taka ekki þátt í fjármögnun nýja bankans að svo stöddu en hafi þess í stað kauprétt á allt að 90% hlutafjár sem verður virkur á árunum 2011-2015.

Ríkið hefur þegar lagt Arion til 72 milljarða í hlutafé og fari svo að skilanefndin ákveði að eignast áðurnefnd 87% í bankanum mun sú fjárhæð að stórum hluta ganga aftur til ríkisins. Þá fær Arion banki 33 milljarða króna víkjandi lán frá ríkinu.

Skilanefnd Glitnis ákvað í október fyrir hönd kröfuhafa þess banka að eignast 95% í Íslandsbanka en ríkið heldur eftir 5%. Samkvæmt þessu verða tveir af stóru viðskiptabönkunum þremur því í höndum erlendra kröfuhafa en Landsbankinn verður áfram í eigu íslenska ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert