Vill að ráðherrar ræði við Breta og Hollendinga

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hvatti til þess á Alþingi í dag að forsætisráðherra og fjármálaráðherra reyni fyrir áramótin að fá fundi með forsætis- og fjármálaráðherrum Breta og Hollendinga til að gera úrslitatilraun um að fá viðunandi lausn í Icesave-málinu.

Siv sagði, að evrópskir ráðherrar virtust skynja, að evrópska innistæðutryggingakerfið tæki ekki kerfishruni.  Vísaði Siv til þess, að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði í ræðu í maí á þessu ári, að evrópska innistæðutryggingakerfið væri ekki hannað til að takast á við kerfishrun heldur aðeins fall einstakra banka. Þá hafi Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, nýlega lýst því yfir að hann muni ekki ábyrgjast innistæður sem var stofnað til utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins og þá má spyrja sig hvort hann telji aðrar reglur gilda um Íslendinga en Breta þegar kemur að innistæðutryggingum.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að ýmis ummæli og skýrslur hafi komið fram, þar sem menn ræddu um veikleika og galla innistæðutryggingakerfisins. Sagði Steingrímur, að Íslendingar hafi reynt, og geri enn, að halda til haga þessari lagalegu óvissu og hún hafi ekki verið gefin eftir af  hálfu Íslendinga. Sagðist Steingrímur m.a. hafa tekið þetta upp á sameiginlegum fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins og EFTA í nóvember. 

„Hvar er baráttuviljinn?" spurði Siv þá og hvatti enn til fundar þar sem íslenskir ráðherra horfðust í augu við bresku og hollensku ráðherrana og mótmæltu því að farið sé svona með Íslendinga. 

Steingrímur sagði að útaf fyrir sig væri verðmætt að eiga ummæli ráðherrana á prenti, sértaklega ummæli hollenska fjármálaráðuneytisins.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Steingrím hvernig íslensk stjórnvöld hefðu hermt ummæli Bos upp á hollensk stjórnvöld og hver viðbrögð hollenskra stjórnvalda hefðu verið. 

Steingrímur sagði, að sjónarmiðum Íslendinga hefði verið haldið uppi allan tímann en þau hefðu aldrei fengið neinar undirtektir. „Við komumst ekki lönd né strönd á grundvelli þessara sjónarmiða okkar," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert