Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ítrekaði eftir ríkisstjórnarfund í dag að ekki væri verið að leyna Íslendinga neinu í tengslum við Icesave-samningana. Hins vegar væri ýmislegt, sem komi fram í samtölum manna, sem ekki eigi erindi í ræðustól Alþingis og upplýsingar um slíkt gætu skaðað hagsmuni Íslendinga. Steingrímur aftók aðspurður, að Íslendingum hefði verið hótað í málinu með neinum hætti.
Steingrímur sagði á Alþingi í gær, að flýta verði afgreiðslu Icesave-málsins, bæði af ástæðum sem vel væru
þekktar og einnig af ástæðum sem ekki væri hægt að fara með í ræðustól Alþingis.
Fram kom hjá Steingrími í dag, að stjórnvöld vonuðust til að niðurstaða fáist í Icesave-málinu á Alþingi í vikunni. Sagði hann það slæmt þegar stjórnarandstaða tefði fyrir lýðræðislega kjörnu þingi eins og gert hefði verið í 2. umræðu um Icesave-frumvarpið.
Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er komin til landsins til að fara yfir forsendur samkomulag sjóðsins og Íslands. Verður meðal annars farið yfir forsendur fjárlaga og þróun þjóðhagsforsendna.