Niðurstaðan endurspeglar traust til Arion banka

Steinar Þór Guðgeirsson.
Steinar Þór Guðgeirsson. mbl.is/Árni Sæberg

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir að það sé mat nefndarinnar að  hagur kröfuhafa sé best tryggður með því að eiga meirihluta hlutafjár í Arion banka. Skilanefndin hefur ákveðið að Kaupþing og þar með kröfuhafar eignist 87% hlutafjár í Arion banka. 13% hlutafjár verða áfram í eigu ríkisins.

„Það er mat okkar að hagur kröfuhafa sé best tryggður með því að eiga meirihluta hlutafjár í Arion banka. Með virkum eignarhlut og aðild að stjórn bankans er skilanefndin í aðstöðu til að efla bankann enn frekar. Tengsl við erlenda kröfuhafa gera okkur kleift að byggja fyrr upp traust milli erlendra og innlendra fjármálastofnana. Í samningaferlinu lagði skilanefndin mikla áherslu á að kröfuhafar hefðu valkosti og að þeir hefðu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Niðurstaðan endurspeglar traust til Arion banka og þess hæfa starfsfólks sem þar starfar. Með ákvörðuninni hefur óvissu verið eytt og við getum nú beitt okkur af fullum krafti að þeirri endurreisn sem framundan er í íslensku efnahagslífi,“ segir Steinar í tilkynningu, sem skilanefndin og fjármálaráðuneytið hafa sent frá sér.

Tilkynning fjármálaráðuneytisins og skilanefndar Kaupþings

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert