Ræða hvort Icesave standist stjórnarskrá

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, á Alþingi
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, á Alþingi mbl.is/Eggert

Fjórir af helstu stjórnskipunarfræðingum landsins hafa verið boðaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis til að fara yfir það hvort ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna stangist á við stjórnarskrá landsins. Fundur nefndarinnar hefst kl. 12.

Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, segir að slíkar athugasemdir hafi komið fram í umræðum um ríkisábyrgðina á Alþingi og í fjölmiðlum.  Því hafa Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen, Ragnhildur Helgadóttir og Sigurður Líndal verið boðuð á fundinn til að fara yfir málið.

Bæði Sigurður Líndal og Ragnar H. Hall Hæstaréttarlögmaður hafa nýverið sagt að verulegur vafi sé á því að efni Icesave-frumvarpsins sé samþýðanlegt stjórnarskránni. „Ég skora á alþingismenn að láta fara vandlega yfir það atriði áður en þetta frumvarp verður tekið til endanlegrar afgreiðslu,“ skrifar Ragnar í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Guðbjartur segist vonast til þess að fundinum muni ljúka á þriðja tímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert