Skóflustunga að nýrri miðstöð í Spönginni

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar tekur skóflustunguna í Spönginni 43 …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar tekur skóflustunguna í Spönginni 43 í dag.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri Þjónustu- og menningarmiðstöð í Spönginni í Grafarvogi í dag. Um er að ræða fyrstu þjónustu og menningarmiðstöð sinnar tegundar á Íslandi þar sem nokkrir aðilar, þar á meðal kirkjan verða með þjónustu.

Í miðstöðinni verða eftirtaldir aðilar:

  • Velferðarsvið með rekstur Miðgarðs þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness.
  • Menningar- og ferðamálasvið með útibú Borgarbókasafns.
  • Eir verður með þjónustu fyrir aldraða, ásamt dagdvöl fyrir heilabilaða.
  • Korpúlfar, félag eldri borgara í Grafarvogi með félagsstarfssemi.
  • Grafarvogskirkja með guðsþjónustur og aðrar kirkjulegar athafnir auk félags-, fræðslu- og æskulýðsstarfs.


Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að það sé vilji borgaryfirvalda að halda áfram framkvæmdum að því marki sem kostur er og um leið stuðla að uppbyggingu og enn betri þjónustu fyrir íbúa í hverfum borgarinnar. Með samstarfi þessara aðila skapist tækifæri til að móta og efla enn frekar þá þjónustu sem í boði verður í hinni nýju Þjónustu- og menningarmiðstöð.

Húsið, sem er á lóðinni Spöngin 43, verður tilbúið í árslok 2013. Byggingin er 5.050 fermetrar og er áætlaður framkvæmdakostnaður 1900 milljónir króna (Kostnaðaráætlun frá september 2009, byggingarvísitala: 492). Jarðvegsvinna hefst á árinu 2010 í kjölfar útboðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert