Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, lagði til á fundi borgarráðs í dag, að útsvarpsprósenta verði hækkuð úr 13,03% í 13,28% og þannig verði útsvarsheimildir borgarinnar fullnýttar. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, lagði hins vegar til að útsvarsprósentan verði óbreytt.
Hanna Birna lagði einnig til að hlutfall fasteignaskatta, holræsagjalds og lóðarleigu vegna ársins 2010 verði óbreytt miðað við yfirstandandi ár. Málinu var vísað til borgarstjórnar, sem á fimmtudag mun fjalla um fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir næsta ár.
Í greinargerð með tillögu Þorleifs segir, að fyrir liggi, að annað árið í röð sé mikill niðurskurður í rekstri borgarinnar. Ákvörðun meirihlutans við afgreiðslu síðustu fjárhagsáætlunar um að fullnýta ekki heimild til útsvarshækkunar hafi nú þegar skaðað þessa mikilvægu málaflokka og verði leikurinn endurtekinn muni Reykjavíkurborg tapa umtalsverðum upphæðum til viðbótar.
Þorleifur segir, að útsvarshækkun upp á 0,25 prósentur geti leitt til um 700 milljóna króna tekna fyrir borgina, en myndi auka skattbyrði einstaklings með 6 milljóna króna árslaun 15.000 krónur á ári.