1.729 atvinnulaus á Suðurnesjum

Horft yfir Keflavík.
Horft yfir Keflavík. mbl.is/ÞÖK

957 karlar og 772 konur eru án atvinnu á Suðurnesjum í dag, eða samtals 1.729 manns. Að sögn Ketils Jósefssonar, forstöðumanns Vinnumálastofnunnar á Suðurnesjum, er atvinnuástandið verulega bágborið en reynt er að útvega atvinnuleitendum úrræði til gagns á meðan beðið er betri tíðar.

„Nóvember, desember og janúar eru myrkir, langir og kaldir. Það virðist hafa áhrif hvort sem árferði er gott eða slæmt. Við erum samt bjartsýn og horfum fram á betri tíma með hækkandi sól. Álver, gagnaver og ég veit ekki hvað stendur okkur til boða og næstum búið að leysa alla liði nema orkuliðinn en eins og landinn segir: Þetta reddast einhvern veginn,“ segir Ketill.

Í millitíðinni nýtir Vinnumálastofnun á Suðurnesjum tímann til að útvega öll þau úrræði sem hægt er. „Við erum með ákveðin skyldunámskeið sem hverjum og einum er boðið upp á sem heitir Árangursrík starfsleit. Þar er farið í færnimöppu og gerð ferilskrár,“ segir Ketill. „Við vinnum í góðu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Tölvuskóla Suðurnesja svo einhverjir séu nefndir, en hjá þessum aðilum standa okkur til boða ýmis námskeið til lengri eða skemmri tíma fyrir okkar fólk.“

Þá hefur Vinnumálastofnun á Suðurnesjum verið í góðu samstarfi við atvinnulífið þar sem boðið er upp á starfsþjálfunarsamninga í 3-6 mánuði. Samvinna/endurhæfing er svo nýjasta aflið sem varð til á síðasta ári þar sem allir áðurnefndir ásamt Heilbrigðisstofnun og Vinnumálastofnun koma að málum. „Þarna er fyrst og fremst verið að aðstoða fólk með skerta starfshæfni, bæði bóklega og verklega. Þarna vinnur faglegt teymi að því að gera þessum einstaklingum kleift að komast aftur út á vinnumarkaðinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert