Um 18.000 heimili hafa verið skráð í áskrift Skjás Eins, en stöðin breyttist í áskriftarstöð í síðasta mánuði. Fram kemur í tilkynningu að áskriftarsöfnun hafi gengið vonum framar og að ákveðið hafi verið að verðlauna tuttuguþúsundasta áskrifandann.
Meðal þess sem 20.000 áskrifandinn mun hljóta er myndataka fyrir alla fjölskylduna hjá Gamanmyndum, gjafakarfa frá Te og Kaffi, flugeldar, konfekt, matarkarfa og ýmislegt fleira.
Rétt um sex vikur eru nú liðnar frá því að tilkynnt var að breyta þyrfti Skjá Einum í áskriftarstöð og viðbrögð almennings hafa verið framar vonum. Hundruð áskrifenda hafa bæst í hópinn á degi hverjum frá því tilkynnt var um breytinguna, segir í tilkynningu.
„Við hefðum auðvitað helst viljað sjá stjórnvöld draga Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði því þá hefðum við ekki þurft að grípa til þess að gera SkjáEinn að áskriftarstöð. Allt síðasta ár höfum við unnið hörðum höndum að því að draga úr kostnaði til að mæta falli krónunnar en þegar samdráttur í auglýsingatekjum bættist við í ofanálag var fyrirséð að óbreytt ástand myndi ekki ganga. Við bjóðum þennan fjölda áskrifenda sem nú hefur bæst í Skjás-fjölskylduna hjartanlega velkominn. Viðbrögðin staðfesta að landsmenn kjósa þá fyrsta flokks afþreyingu sem SkjárEinn er. Við munum leggja okkur fram um að styrkja dagskrá okkar enn frekar á komandi misserum,” segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjá miðla, í tilkynningu.