Alls var 207 kaupsamningum um fasteignir þinglýst í nóvember við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu. Heildarvelta nam 9,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 47,1 milljón króna.
Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 3,5 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 2 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 4,2 milljörðum króna.
Fram kemur á heimasíðu Fasteignaskrár Íslands, að þegar nóvember sé borinn saman við október fækki kaupsamningum um 2,4%en velta eykst um 60,2%. Í október 2009 var þinglýst 212 kaupsamningum, velta nam 6,1 milljarði króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 28,7 milljónir króna.
Þegar nóvember 2009 er borinn saman við nóvember 2008 fjölgaði kaupsamningum um 30,2% og velta eykst um 107,1%. Í nóvember 2008 var þinglýst 159 kaupsamningum, velta nam 4,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 29,6 milljónir króna.
Makaskiptasamningar voru 56 í nóvember eða 29,5% af öllum samningum. Í október voru makaskiptasamningar 56 eða 29,3% af öllum samningum. Í nóvember 2008 voru makaskiptasamningar 37 eða 24,5% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greitt með annarri fasteign. Upplýsingar um makaskiptasamninga eiga eingöngu við um íbúðarhúsnæði.