Fréttaskýring: Línur að skýrast í bankakerfinu

Nú þegar skilanefnd Kaupþings hefur ákveðið að eignast 87% hlut í Arion er eignarhald á viðskiptabönkunum þremur nokkurn veginn komið á hreint. Skilanefnd Glitnis hefur áður ákveðið að eignast 95% hlut í Íslandsbanka og samkomulag ríkisins og skilanefndar Landsbankans gerir ráð fyrir því að skilanefndin eignist allt að 20% í Nýja Landsbankanum.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í bönkunum þremur, þ.e. 5% hlut í Íslandsbanka, 13% hlut í Arion og að minnsta kosti 80% hlut í Landsbankanum. „Fari svo að ríkið eignist hluta stofnfjár í þeim sparisjóðum sem óskað hafa eftir stofnfjáraukningu má einnig fastlega gera ráð fyrir því að Bankasýsla fari með þá eignarhluti sömuleiðis,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar.

Ákveðið hefur verið að ríkið muni eiga einn af fimm stjórnarmönnum í Íslandsbanka og Arion og mun Bankasýslan skipa þá menn. Skilanefndir Glitnis og Kaupþings munu hins vegar skipa fjóra menn í viðkomandi stjórnir. „Samkomulagið við skilanefndirnar er hins vegar háð samþykki bæði Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits og áður en það liggur fyrir er ekki hægt að skipa í stjórnirnar,“ segir Þorsteinn.

Að því gefnu að eftirlitsstofnanirnar tvær veiti samþykki sitt verði haldnir hluthafafundir þar sem nýjar stjórnir verða skipaðar.

Skilanefndirnar starfa nú samkvæmt neyðarlögunum svokölluðu og eru skipaðar af Fjármálaeftirlitinu. Kröfuhafar munu ekki hafa formlega aðkomu að stjórnum gömlu bankanna fyrr en nauðasamningar hafa verið samþykktir og má búast við því að það verði ekki fyrr en á árinu 2011 hið fyrsta. Kröfur í bankana eru margar og segja heimildarmenn Morgunblaðsins að það muni væntanlega taka allt næsta ár að fara yfir kröfur, meta þær og taka ákvarðanir um hvort þeim verði hafnað eða ekki. Þá megi búast við deilum vegna þeirra ákvarðana, sem dómstólar þurfi að skera úr um. Ekki sé hægt að fara í nauðasamninga fyrr en að þessu ferli loknu og fram að þeim tíma verði stjórn gömlu bankanna undir forræði FME.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert