Skilanefnd Kaupþings setti 5,5% hlut sinn í norska tryggingafyrirtækinu Storebrand í söluferli í gær. Dagslokaverð hlutabréfa í fyrirtækinu var 40 norskar krónur á hlut.
Salan mun því skila um 21,3 milljörðum króna í þrotabú Kaupþings og mun ganga upp í kröfur á hendur bankanum. Fjárfestingabankinn Morgan Stanley sér um söluna á hlutnum í Storebrand.
Skilanefnd Kaupthing Singer&Friedlander, sem skipuð er af breskum dómstólum, seldi 4,5% hlut í Storebrand í maí á þessu ári, en þá var gengi bréfa í félaginu 24,5 norskar krónur á hlut.
Við fall Kaupþings átti bankinn um 20% hlut í Storebrand. Bankinn hafði byggt upp hlut sinn í fyrirtækinu á árinu 2007, og verðið sem hann greiddi fyrir bréfin í Storebrand á þeim tíma var meira en tvöfalt hærra en söluverð þeirra í dag.
Sjá nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.