Starfsfólk grunnskóla Árborgar og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuzar á Selfossi hafa sent bréf til foreldra í bænum þar sem kemur m.a. fram að borið hefur á því sl. vikur að unglingar úr grunnskólum sveitarfélagsins hafi verið að spila Olsen Olsen í skólunum eða í félagsmiðstöðinni upp á peninga þótt þeir séu ekki sjáanlegir þegar spilað er.
Þetta kemur fram í blaðinu Dagskránni á Selfossi. Þar segir, að heyrst hafi hjá unglingunum að upphæðirnar, sem lagðar eru undir, hafi hækkað upp á síðkastið og að sumir skuldi yfir 20.000 kr.
Tekið er fram í bréfinu að það sé bannað að spila upp á peninga í skólum og félagsmiðstöðvum.