Alls ekki er víst að verktakafyrirtækið KNH ehf., þurfi raunverulega að segja allt að 60 starfsmönnum upp eins og sagt hefur verið frá í fréttum. Fram kom í máli Kristjáns L. Möller samgönguráðherra á Alþingi í morgun, að hann hefði átt fund með forsvarsmanni fyrirtækisins í gær.
Kom þar fram að það færi að mestu eftir veðurfari í vetur hvort til uppsagna þurfi að koma. KNH vinnur að nokkrum framkvæmdum í vegakerfinu og ef veðuraðstæður leyfa að þær framkvæmdir haldi áfram í vetur þarf ekki að koma til neinna uppsagna, að sögn Kristjáns. Honum hefði verið tjáð að viðkomandi uppsagnir væru einungis varúðarráðstöfun til að gera ráð fyrir mögulegum slæmum aðstæðum, en fréttir af uppsögnunum hefðu verið afbakaðar í fjölmiðlum.
Lagði hann áherslu á að ráðgert væri að framkvæma í samgöngukerfinu fyrir níu til tíu milljarða á næsta ári, sem væri svipað hlutfall af landsframleiðslu eins og var á góðærisárunum.