Fjórir þingmenn VG með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar, hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að forsætisráðherra og utanríkisráðherra birti öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.
Í greinargerð með tillögunni segir, að ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð sé stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi hafi m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina og yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði „hinar viljugu þjóðir“.
Vísað er til þess, að Ísland var sett á lista Bandaríkjastjórnar um „hinar viljugu þjóðir“ sem fyrst var greint frá á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem haldinn var 18. mars 2003. Þar taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu og sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og fengist hafi afgerandi svör.
„Opinberlega hefur því verið haldið fram að á ríkisstjórnarfundi þennan sama dag hafi ákvörðun verið tekin um stuðning Íslands við innrásina. Það er augljóslega málum blandið og um það deilt að hvaða marki ríkisstjórnin yfirleitt kom að málinu eða einstakir ráðherrar eða embættismenn. Sama gegnir um aðkomu utanríkismálanefndar og Alþingis sem lögum samkvæmt hefði átt að upplýsa áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Um þessa þætti er margt á huldu þar sem engar opinberar almennar umræður fóru fram í aðdraganda ákvörðunar um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak," segir m.a. í greinargerðinni.
Er þeirri skoðun lýst, að eðlilegt sé að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna, svo að deilur þurfi ekki að fylgja okkur inn í framtíðina hvað staðreyndir máls áhrærir.