Yndislega ótrúlega ómerkilegt

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert

Til nokkurra orðaskipta kom milli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, og þingmanna stjórnarandstöðunnar, á Alþingi í dag vegna ummæla, sem Steingrímur viðhafði fyrr í vikunni um að sumar ástæður þess að Icesave-málið verði að klára sem fyrst séu þess eðlis að ekki hægt sé að greina frá þeim á Alþingi.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vildi að ummæli fjármálaráðherra væru skýrð og að forseti þingsins beitti sér fyrir því, að ráðherrann upplýsti þingmenn um það á öðrum vettvangi hvað ekki mætti segja í ræðustóli þingsins. 

„Þetta er alveg yndislega, ótrúlega ómerkilegt. Það er alveg sama hvernig maður reynir að fara yfir málin, það er umsvifalaust komið og reynt að blása það út og gera úr því einhvern óskapnað út af engu," sagði Steingrímur.

Grímulausar hótanir aðila í Evrópusambandinu

Fyrr í dag fjallaði Steingrímur í ræðu nánar um fyrrgreind ummæli sín og sagðist hafa haft gaman af því, að reynt hefði verið að leggja mikla merkingu í þau. „Vita menn það ekki, að iðulega eru einhverjir pólitískir og viðskiptalegir hagsmunir á ferð, sem gera það að verkum, að menn þurfa að gæta orða sinna og vega og meta hvað þjónar hagsmunum landsins að segja opinberlega?" spurði Steingrímur.

Hann sagði að af skiljanlegum ástæðum hefði ekki verið talað hátt hér á landi fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta Íslendinga hafa verra af ef þeir drifu sig ekki í að klára Icesave. 

„Ég er einfaldlega að tala um hinn augljósa veruleika, að ýmislegt tengt okkar stöðu nú er viðkvæmt. Er það eitthvað skrýtið? Hefur ekki orðið eitt hrun? Hefur ekki orðspor Íslands stórskaddast? Bíður okkar ekki það verkefni að reyna að endurreisa traust og fá menn til að trúa því á nýjaleik að það sé hægt að semja við Íslendinga og eiga við þá viðskipti?" spurði Steingrímur. 

Hann sagði að ýmiskonar vandamál væru í samskiptum Íslendinga við fjölmarga aðila, þar á meðal væru mörg óleyst og erfið vandamál sem tengdust hagsmunum Íslendinga hjá mörgum stærstu og mikilvægustu langtíma fjármögnunaraðilum fjárfestinga á Íslandi, þar á meðal stórum norrænum og evrópskum bönkum og fjárfestingarsjóðum.

„Og auðvitað tölum við varlega um það héðan úr ræðustóli á Alþingi," sagði Steingrímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka