Þriggja lítra kassi af rauðvíni kostar 5.258 krónur þegar gjöld á áfengi hækka, en frumvarp þess efnis liggur fyrir Alþingi. Vínið kostar 4.898 krónur í dag.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að áfengisgjald hækki um 10% og virðisaukaskattur hækki úr 24,5% í 25%. Talið er að þessi hækkun á áfengisgjaldi geti skilað einum milljarði aukalega í ríkissjóð. Verði frumvarpið samþykkt hafa gjöld á áfengi hækkað um 42% á tólf mánuðum.
ÁTVR hefur reiknað út verð á algengum tegundum miðað við hækkun á sköttum. Reiknað er með að álagning innflytjenda breytist ekki. Miðað við þetta hækkar rauðvínskassinn um 7,3%. Algengt rauðvín (750 ml) kostaði 1.898 kr. fyrir hækkun, fer í 1.991. kr. sem er 4,9% hækkun. Algengur bjór kemur til með að hækka um 5,7% og kosta 312 kr. (500 ml). Þá hækkar vodkaflaska (700 ml) úr 4.394 kr. í 4.749, en það er 8,1% hækkun.