Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur krafist þess að rannsóknin á hendur honum verði hætt. Þá krefst Baldur þess einnig að kyrrsetning eigna hans, á grundvelli ákvörðunar sýslumanns, verði felld úr gildi. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.
Byggir krafa Baldurs, um að rannsókninni verði hætt, ekki síst á því að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi tilkynnt honum um það í maí á þessu ári að ekki yrði aðhafst frekar gegn honum. Málin eru á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember nk.
Rannsóknin, sem FME hefur vísað til sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, snýr að sölu Baldurs á hlutabréfum fyrir á annað hundrað milljónir króna í Landsbankanum í september í fyrra og þá hvort Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum í skilningi laganna á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram.