Dagur gagnrýnir borgarstjóra harðlega

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Kristinn

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, gagnrýndi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, harðlega á borgarstjórnarfundi fyrir að víkja ekki einu orði að nauðsynlegu uppgjöri við 18 ára ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og ábyrgð hans á efnahagshruninu heldur reyna að skella skuldinni á núverandi efnahagserfiðleikum á þá ríkisstjórn sem nú væri að glíma við að láta enda ná saman í ríkisfjármálum.

Hanna Birna hefði verið í innsta hring forystu Sjálfstæðisflokksins sem aðstoðarframkvæmdarstjóri flokksins og hægri hönd Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra flokksins og bankaráðsmanns í Landsbankanum á meðan „glórulaus" einkavæðing bankanna fór fram. Það væri grundvallaratriði að endurmat færi fram á þeirri hugmyndafræði sem hefði leitt til hrunsins en engin teikn væru á lofti um að Sjálfstæðisflokkurinn væri byrjaður á að læra af því sem hefði gerst.

Dagur ræddi töluvert um ummæli Jórunnar Frímannsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og formanns velferðarráðs borgarinnar í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins í gær. Í viðtalinu gat Jórunn m.a. ekki svarað því hvers vegna reglur um jólauppbót þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð væru stífari hjá Reykjavík en öðrum sveitarfélögum Dagur sagði ummæli hennar bera vott um algjöra firringu og væri kannski fyrsta andlit þeirra átaka sem nú ættu sér stað um fjármál borgarinnar.

Dagur benti á að Faxaflóahafnir hygðust hækka innflutningsgjöld og hjá Orkuveitu Reykjavíkur væri undirliggjandi þörf fyrir taxtahækkanir.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka