Forsætisnefnd ræði stundaskrá stjórnarandstöðunnar

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, fór fram á það við umræður um fundarstjórn forseta á Alþingi að forsætisnefnd komi saman og ræði stundaskrá stjórnarandstöðunnar sem hann sagði misbeitingu á þingsköpum og andsvaralögum. Þingmenn í öllum flokkum hafa hækkað róminn í ræðustól. Samþykkt var að þingfundur geti staðið lengur í dag.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að stjórnarandstaðan hafi skipulagt tíma sinn með sérstakri stundaskrá og kemur á henni fram hverjir skuli fara í ræðustól í andsvör hverju sinni. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, vísaði til þess í ræðustól í dag að stjórnarandstaðan kvarti sáran yfir því hversu ófjölskylduvænn vinnustaður Alþingi sé. Hann hvatti þá því til að skipuleggja stundaskránna með þeim hætti að fjölskyldufólk taki dagvaktina en aðrir vinni á kvöldin og fram á nótt.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa setið í tólf tíma yfir umræðunni í gær, frá kl. 18-6. Á þeim tíma hafi ekkert nýtt komið fram og muni hann bíða aftur í nótt og halda í ræðustól ef eitthvað nýtt komi fram.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, krafðist þess að fá að vita hvað kosti að halda Alþingi gangandi allar nætur og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi forseta Alþingis harðlega og sagði hann ekki sinn forseta. Aðrir stjórnarandstæðingar bentu á að ríkisstjórnarflokkunum hefði verið boðin hliðrun á dagskránni til að ræða mikilvægari mál.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði umræðuna um fundarstjórn forseta tímasóun enda hefði ekkert reynt á fundarstjórnina. Þá sagðist hann sammála þingmönnum stjórnarandstöðunnar um að þeir héldu ekki uppi málþófi. Hins vegar væri þetta skrípaleikur og obbinn á tímanum fari annars vegar í umræðu um fundarstjórn forseta og hins vegar fari þingmenn upp í ræðustól í andsvör við sjálfa sig. Þetta sagði fjármálaráðherra þinginu til skammar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert