Gagnrýna ummæli embættismanns

Úr verksmiðju Ölgerðarinnar.
Úr verksmiðju Ölgerðarinnar.

Bæði Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins gagnrýna harðlega ummæli, sem Aðalsteinn Hákonarson, forstöðumaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, lét falla í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi um Ölgerðina, sem í vikunni sagði upp 30 starfsmönnum vegna rekstarerfiðleika.

Samtök atvinnulífsins segja á heimasíðu sinni, að ef þessi málsmeðferð sé ný stefna af hálfu embættisins marki það þáttaskil í opinberri umræðu hér á landi.

Tilefni viðtalsins hafi verið umfjöllun um ákvæði í stjórnarfrumvarpi um tekjuöflun ríkisins þar sem lagt er til að við samruna félaga falli niður réttur sameinaðs félags til að telja vexti af lánum sem eitt af hinum sameinuðu félögum hefur tekið til fjármögnunar kaupa á hlutum í öðru félagi til frádráttarbærra vaxtagjalda. 

Samtök atvinnulífsins segja, að í viðtalinu hafi Aðalsteinn ýjað að ólöglegu athæfi Ölgerðarinnar og dregið ályktanir um stöðu þess. Hann hafi einnig dregið í efa ástæður fyrirtækisins fyrir boðuðum aðhaldsaðgerðum sem sé samdráttur í eftirspurn eftir framleiðslu- og söluvörum þess, m.a. af völdum vörugjalda og hækkunar á virðisaukaskatti.

„Það getur ekki samræmst hlutverki opinbers embættismanns að fjalla um málefni einstakra fyrirtækja og varpa rýrð á þau. Samtök atvinnulífsins fordæma þessi vinnubrögð og treysta því að þau verði ekki endurtekin," segir á heimasíðu SA.

Í sama streng er tekið á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Þar er haft eftir Jóni Steindóri Valdimarssyni, framkvæmdastjóra samtakanna, að Aðalsteinn hafi farið eins langt út fyrir verksvið sitt sem hugsast geti og rýri vægast sagt það traust sem nauðsynlegt sé að skattgreiðendur beri til skattyfirvalda.

„Hver trúir því eftir þetta að eftirlitsdeild ríkisskattstjóra fari hlutlaust með málefni Ölgerðarinnar undir stjórn forstöðumannsins sem vænir stjórnendur beinlínis um að fara með lygimál,“ segir Jón Steindór á vef SI.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert