Gert að greiða myntkörfulán

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann til að greiða rúmar 4,3 milljónir króna myntkörfulán sem hann hafði tekið hjá SP fjármögnun. Var ekki fallist á þá kröfu mannsins að lánið hafi verið ólöglegt þar sem SP fjármögnun hafi ekki verið heimilt að binda afborganir lánsins við gengi japansk jens og svissneska franka samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu.

Maðurinn hafði gert kaupleigusamning um bifreið við SP fjármögnun og var samið um greiðslu í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Fallist var á með SP fjármögnun að heimilt hefði verið að binda afborganir lánsins í íslensum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum.  Maðurinn hafi vitandi vits tekið lán í erlendri mynt. Lög stæðu ekki í vegi fyrir að hægt væri að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.

Er manninum því gert að greiða 4.307.833 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 27. janúar 2009 til greiðsludags auk 400.000 króna í málskostnað.

Segir í niðurstöðu héraðsdóms að ekki valdi sá er varar og lántakandanum hafi mátt vera ljóst að greiðslur hans samkvæmt samningi aðila voru bundnar við gengi japansks jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu og að slíku fylgdi áhætta. 

„Gengisþróun hefur orðið flestum Íslendingum undanfarið ákaflega óhagfeld.  Á þeirri þróun getur SP-fjármögnun hf. hins vegar ekki borið ábyrgð.  Þá er ósannað að SP-fjármögnun hf. hafi með einhverjum hætti nýtt sér hugsanlega fákunnáttu (NN) um gjaldeyrismál eða stuðlað að því að honum hafi hugsanlega verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar um þau efni eða gengistryggingu leigugreiðslu.  Ekki eru því efni til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks samningsréttar að samningar séu skuldbindandi fyrir aðila þeirra," segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka