Í ályktun sem aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Garðabæ hefur sent frá sér er lýst furðu á þeim málatilbúnaði sem stjórnarandstaðan á Alþingi hefur uppi við umræður um Icesave samninga.
„Í nafni lýðræðis hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar þegar stórskaðað hagsmuni Íslendinga með málþófi. Þessi ótrúlega hegðun á mestu örlagatímum Íslands grefur undan tilraunum ríkisstjórnarinnar og fulltrúa þjóðarinnar í hvers konar viðskiptum til þess að efla traust erlendra manna á Íslendingum sem þjóðríki, sem hægt sé að taka alvarlega,“ segir í ályktuninni.
Aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Garðabæ hvetur þar jafnframt þingmenn Vinstri grænna til þess að taka þingflokk Samfylkingarinnar sér til fyrirmyndar og ganga í takt og í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, öllum til heilla.