Nýr meirihluti í pípunum?

Sigmar Júlíus Eðvarðsson.
Sigmar Júlíus Eðvarðsson.

Sigmar Eðvarðsson, bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Grindavík, neitar orðrómi um að nýr meirihluti sé í pípunum í bæjarstjórn Grindavíkur. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir hætti sem bæjarstjóri Grindavíkur um sl. mánaðamót og sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar en hún hefur tekið við prestsembætti austur á fjörðum.

Eftir því sem fram kemur á vef Víkurfrétta var hún límið sem hélt saman meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Framsóknarflokks með stuðningi Vinstri grænna. Samstarfið var brothætt á liðnu sumri en annar bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, Garðar Páll Vignisson, gekk þá úr Samfylkingunni og yfir í Vinstri græna. Áður hafði verið tekist á í meirihlutanum í Grindavík um ráðningu skólastjóra í nýjan grunnskóla í Grindavík. Þar settu framsóknarmenn í meirihlutanum sig á móti því að Garðar Páll yrði ráðinn skólastjóri.

Eftir því fram Víkurfréttir segja mun Garðar Páll nú hafa meirihlutamálin í Grindavík í hendi sér og í burðarliðnum sé meirihlutasamstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins þar sem sjálfstæðismenn komi með bæjarstjórann Ólaf Örn Ólafsson aftur til starfa í Grindavík.

Ólafur Örn er ennþá á launum sem bæjarstjóri í Grindavík, enda gerði starfslokasamningur hans ráð fyrir því að hann yrði á launum út kjörtímabilið og sex mánuðum betur. Enginn bæjarstóri er nú starfandi í Grindavík eftir að Jóna Kristín hætti. 

Víkurfréttir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert