Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjíðsins (AGS), sem eru staddir hér, viðurkenna að skuldabyrði Íslands sé meiri heldur en fram hefur komið, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sem fundaði með fulltrúunum í dag. Heimildir mbl.is herma að skuldabyrðin sé 350% af þjóðarframleiðslu.
„Það var greinilegt að þeir halda mjög stíft í þá aðferðafræði sem þeir hafa talað fyrir. Sumsé háa sköttum og gjaldeyrishöft og leggja áherslu á að þetta verði þannig áfram. Þeir segja nú reyndar að ákvörðunin liggi hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við mbl.is.
Fulltrúar AGS funduðu í dag með formönnum allra stjórnmálaflokkanna, þar sem þeim var boðið að spyrja spurninga um efnahagsstefnuna og aðkomu AGS að henni.
Fyrir um mánuði birti AGS skýrslu um efnahagsáætlun Íslands. Þar kom fram að erlendar skuldir Íslands gætu náð um 310% af landsframleiðslu á þessu ári.
Sigmundur Davíð segir að rök AGS fyrir því að Ísland ráði við 310% skuldabyrði séu undarleg. Með enn meiri aðhaldi í ríkisútgjöldum, strangari gjaldeyrishöftum, og láta þau vara lengur, og vegna þess að það verði svo mikill munur á út- og innflutningi langt fram í tímann geti Ísland ráðið við 310% skuldabyrði.
Sigmundur Davíð segist hafa spurt fulltrúana hvort aldrei muni koma að þeim tímapunkti að AGS meti skuldabyrði Íslands óviðráðanlega. Fulltrúarnir hafi sagt að það gæti gerst. „Þeir hefðu nefnt eitt dæmi um slíkt í skýrslunni síðustu. Það yrði ef neyðarlögin yrðu dæmd úr gildi,“ segir Sigmundur Davíð.