Tveir í 10 ára fangelsi

Sakborningarnir koma í land eftir skútusiglinguna.
Sakborningarnir koma í land eftir skútusiglinguna. mbl.is/Helgi Garðarsson

Hæstirétt­ur dæmdi í dag höfuðpaur­ana í Papeyj­ar­mál­inu svo­nefnda, Hol­lend­ing­inn Peter Rabe og Rún­ar Þór Ró­berts­son, í tíu ára fang­elsi hvorn fyr­ir þátt sinn í mál­inu. Árni Hrafn Ásbjörns­son sem einnig var hand­tek­inn um borð í skút­unni Sir­taki í apríl sl. var dæmd­ur í níu ára fang­elsi.

Mönn­un­um þrem­ur var, ásamt þrem­ur öðrum mönn­um, gefið að sök að  hafa staðið sam­an að inn­flutn­ingi á sam­tals 55 kíló­um af am­feta­míni, tæp­um 54 kíló­um af kanna­bis og 9432 e-töfl­um. Fíkni­efn­in voru flutt áleiðis til Íslands frá Belg­íu með skútu, en slöngu­bát siglt til móts við hana og bát­arn­ir mæst á hafi úti inn­an við 30 sjó­míl­ur suðaust­ur af land­inu, þar sem efn­in voru flutt milli báta. Slöngu­bátn­um var síðan siglt með efn­in til Djúpa­vogs og þau sett þar í bíl, sem lög­regla stöðvaði síðar við Höfn og lagði hald á fíkni­efn­in. 

Menn­irn­ir sex voru all­ir fund­ir sek­ir í héraðsdómi og dæmd­ir í fang­elsi en þeir þrír, sem þyngstu dóm­ara hlutu, áfrýjuðu til Hæsta­rétt­ar. Peter Rabe krafðist þess að máli hans yrði vísað frá dómi og taldi að ís­lenska ríkið brysti lög­sögu yfir hon­um þar sem hann hefði aldrei komið inn fyr­ir 12 mílna land­helgi Íslands.

Hæstirétt­ur seg­ir, að af gögn­um máls­ins sé ljóst að Rabe hafi verið leigutaki og skip­stjóri skút­unn­ar, sem skráð var í Belg­íu. Þá sé óum­deilt að skút­unni hafi ekki verið siglt inn í 12 mílna land­helgi. Hins veg­ar verði að virða hátt­semi sex­menn­ing­anna sem eina heild og brot þeirra hafi verið full­framið þegar efn­in voru flutt inn í land­helg­ina. Brot Rabe verði ekki skilið frá þætti annarra í mál­inu. 

Þá taldi Hæstirétt­ur, að skil­yrðum til töku skút­unn­ar á út­haf­inu hafi verið full­nægt með hliðsjón af haf­rétt­ar­samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna. Þannig mætti hefja eft­ir­för þótt skip hefði ekki komið inn í land­helgi strand­rík­is ef ein­hver af bát­um þess væri stadd­ur inn­an henn­ar. Í þess­um efn­um yrði að jafna slöngu­bátn­um, sem sótti fíkni­efn­in, til báts hins er­lenda skips.

Hæstirétt­ur staðfesti því fang­els­is­dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur yfir Rabe, Rún­ari Þór og Árna. 

Skútan Sirtaki á siglingu í fylgd varðskips.
Skút­an Sir­taki á sigl­ingu í fylgd varðskips. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert