Arion banki ætlar að bjóða viðskipavinum upp á nokkrar leiðir sem taka aukið mið af misjafnri skuldastöðu þeirra og því hvort um er að ræða erlend eða innlend húsnæðislán. Höfuðstóll erlendra íbúðalána getur lækkað um allt að 30 prósent samkvæmt hinum nýju skuldaúrræðum bankans.
Ekki verður krafist uppboða vegna vangoldinna húsnæðislána til loka árins 2010, óháð því hvort um er að ræða innlend eða erlend lán. Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá bankanum í dag.
Arion banki býður viðskiptavinum sínum, sem eru með erlend húsnæðislán, tvo valkosti: Að lækka höfuðstól lánsins um 30 prósent og breyta því í fasteignalán í íslenskum krónum til allt að 40 ára. Hægt er að fá lánið með 6,0% óverðtryggðum vöxtum til næstu þriggja ára. Að þeim tíma liðnum færist vaxtaprósentan yfir í bestu fáanlegu íbúðalánavexti sem bjóðast hjá bankanum.
Eftir þessa leiðréttingu lánsins verður staða þess sú sama og hún var þann 29. september 2008. Það er mat Arion banka að þessi leið henti vel þar sem veðhlutfallið er undir 155% af verðmæti húseignarinnar, að því er segir í tilkynningu.
Viðskiptavinum með erlend húsæðislán stendur líka til boða að Arion banki lækki höfuðstól lánsins í 110% af markaðsvirði eignarinnar. Láninu er þá breytt í íslenskt fasteignalán, óverðtryggt eða verðtryggt. Lánið ber breytilega markaðsvexti verðtryggðra lána, sem eru nú 5,4%, eða breytilega markaðsvexti óverðtryggðra lána, sem eru nú 9,75 prósent.
Að auki býður bankinn sértæka skuldaaðlögun sé greiðslugeta minni en sem nemur hinu 110 prósenta veðhlutfalli. Virði húseignarinnar miðast við núverandi markaðsvirði, sem þó getur aldrei verið lægra en fasteignamat frá 1. desember 2009. Það er mat Arion banka henti vel þar sem veðhlutfallið er yfir 155% af verðmæti eignarinnar.
Einungis er unnt að velja aðra af ofangreindum leiðum. Í báðum tilvikunum er um ný lán að ræða, sem bera þinglýsingarkostnað fyrir lántakendur. Báðar leiðirnar gera hins vegar ráð fyrir allt að 30 til 40 prósenta lækkunum á höfuðstól núverandi lána.
„Þeir sem eru með innlend íbúðalán hjá Arion banka gefst kostur á lækkun höfuðstóls í 110% af markaðsvirði húseignarinnar. Vaxtakjör lánsins haldast óbreytt og þar sem áfram verður um sama lán að ræða er ekki um neinn þinglýsingarkostnað að ræða. Auk lækkunar á höfuðstól lána býður bankinn viðskiptavinum með innlend íbúðalán upp á sértæka skuldaaðlögun. Þá miðast virði eigna við núverandi markaðsvirði, sem þó getur aldrei verið lægra en fasteignamat frá 1. desember 2009. Fjórði valkosturinn sem Arion banki býður viðskiptavinum sínum er að greiða eingöngu vexti af fasteignalánum sínum í allt að eitt ár. Mánaðarlegar greiðslur geta þá lækkað um 10 til 25 prósent, allt eftir lengd lánstímans," samkvæmt fréttatilkynningu.