Catalina Mikue Ncogo er önnur kvennanna sem situr í gæsluvarðhaldi grunuð um aðild að mansali og að hafa haft milligöngu um vændi, samkvæmt heimildum mbl.is.
Catalina var fyrr í vikunni dæmd í í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir hórmang og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Dómurinn sýknaði hana af ákæru um mansal. Að sögn lögmanns Catalínu eftir uppkvaðningu dómsins mun hún áfrýja dómnum til Hæstaréttar.
Í dómnum frá því fyrr í vikunni kemur fram að
Catalina hafi staðið innflutningi á um fjögur hundruð grömmum af
kókaíni til landsins sem aðrir voru fengnir til að flytja til
landsins auk þess að halda úti vændisstarfsemi.
Catalina var í dag úrskurðuð í gæsluvarðhald til 11. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ásamt annarri konu um tvítugt.
Rannsókn
málsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur og í tengslum við hana
hefur lögreglan lokað fyrir vændisstarfsemi í húsi í miðborginni, að
því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
Áðurnefndar konur voru handteknar í gær en samhliða voru framkvæmdar húsleitir á tveimur stöðum en á öðrum þeirra fannst lítilræði af fíkniefnum.
A.m.k. þrjár aðrar konur koma við sögu í málinu en þær eru taldar hafa lagt stund á vændi. Umræddar konur eru allar á fertugsaldri og af erlendu bergi brotnar. Mál einnar þeirrar er jafnframt rannsakað sem mansalsmál en konurnar þrjár hafa verið færðar til skýrslutöku hjá lögreglu. Rannsóknin tekur einnig til þeirra sem keyptu kynlífsþjónustuna sem veitt var.